Aunty Bing Dao

Wednesday, April 04, 2007

Ég verð nú að viðurkenna að ég er með stanslausann hnút í maganum þegar ég fer ein út á götu. Shang Hai er ekkert eins og í Taichung-Taiwan, þar sem maður hafði engar áhyggjur og var líklegast allt of kærulaus.

En þar sem Einar var að vinna í gær og mánudaginn og flaug svo til Peking í morgun á fund, verð ég bara að bíta á jaxlinn og vona að allir vondu karlarnir séu hræddir við hvítu sveitarstelpuna sem er komin af Víkingum. Það þýðir víst ekkert að hanga bara inni.

Ég skellti mér því seinnipartinn á Nan Jing Lu sem er aðal verslunargatan hér í Shang Hai. Ég hefði nú getað verslað ýmislegt en þar sem ég var aðallega að hugsa um að verða ekki rænd, strunsaði ég upp og niður götuna og var orðin þokkalega pirruð á sölumönnum í restina. Hey lady you wonna buy shoes, TV ? Já ég vill kaupa sjónvarp, ég skelli því bara á bakið !

Monday, April 02, 2007

Cash Recycling Machine=Hraðbanki

Það er víst stress hér í Shang Hai líka þótt ég sé ekkert svo stressuð enn. Samt sem áður þarf ég að læra óhemju mikið um páskana og ætla ég nú að reyna að líma mig við bækurnar næstu 2 daga því Einar þarf að vinna í dag og á morgun og svo þarf hann að skreppa í dags ferð til Peking á miðvikudaginn.
En ferðin gekk annars vel, hef tekið lengra flug en þetta svo ég var frekar fljót að ná mér eftir flugið. Shang Hai er bara ágætis borg, það sem ég hef séð af henni að minnsta kosti...sem er ekki mikið. Plan dagsins er að fara út með kortið og lonely planet bókina mína, villast og vona að ég komist aftur heim. Nú ef það tekst ekki verð ég bara að hringja í Einsa eða taka leigara og vona að hann skili mér á réttan stað.

Íbúðin er mjög fín, 2 svefnherbergi, 2 baðherbergi, stofa, eldhús og kona sem kemur 3x í viku og þvær þvott og þrífur. Adam vinur okkar frá Bandaríkjunum kíkti í heimsókn í gær, hann var í Taiwan allan tíman sem ég var þar. Það var frekar heimilislegt að hitta hann aftur, einskonar Taiwan fílingur.
Jæja nú krossleggjum við fingur og vonum að Ingunn skili sér aftur heim fyrir kvöldið.

Thursday, March 29, 2007

Þá er Ingunn LOKSINS komin í páskafrí og er á leiðinni úr stressinu á Íslandi til Shang Hai. Ííííhaaa

Tuesday, March 27, 2007

Þegar ég flutti heim fyrir ári síðan keypti ég mér 7 mánaðar líkamsræktar kort í Hreyfingu. Ég ætlaði bara að kaupa 1 mánuð fyrst en þegar 7 mánuðir reyndust mikið hagstæðari var skellt sér á það blessaða tilboð. Þar sem ég er búin að vera mikið í Ölfusinu síðustu mánuði var kortið ekki mikið nýtt en í staðin fór ég að æfa í "ræktinni" heima sem er hin mesta snilld. Jæja hvað um það, ég skrifaði sem sagt undir 7 mánaða samning og tekið var af kortinu mínu á hverjum mánuði. Svo nú um áramótin fékk ég sent bréf frá þessu blessaða fyrirtæki þar sem eitthvað stóð um það að kortið mitt væri útrunnið...og svo bara blablabla...ég nennti ekki að lesa meir enda sá ég litla ástæðu til þess því ég ætlaði ekki að skipta við þetta fyrirtæki meir í bráð.

Nú og þar sem ég er ekki mikið fyrir að lesa svona pésa og hvað þá Vísa reikninginn minn sem á það til að vera mjög langur, komst ég að því að þau hjá Hreyfingu hafa tekið út af kortinu mínu á hverjum mánuði eftir að kortið rann út...og hærri upphæð en var vanalega. Ég vissi að sjálfsögðu upp á mig sökina...maður á alltaf að fara yfir vísareikninginn sinn !!! En hvað um það ég hringi í Hreyfingu og þar talaði ég við einhverja stúlku sem var reyndar mjög kurteis og þolinmóð á meðan ég sagði henni hversu ósátt ég væri við það að þau væru enn að taka út af kortinu mínu.

Hún útskýrði fyrir mér að það hafi staðið einhverstaðar í samningnum, meira að segja ekki í smá letrinu...bara í einhverri langri klausu sem fólk eins og ég nennir ekki að lesa þegar það heldur að það sé hvort sem er bara að skrifa undir 7 mánaða samning.

Ég spurði hana hvort ég væri virkilega eina manneskjan sem væri búin að kvarta yfir þessu og hún sagði að ég væri reyndar ekki sú eina.

Niðurstaðan er sú að ég geri mér algjörlega grein fyrir því að þetta sé mér að kenna því ég las ekki allt bréfið sem sent var heim og hvað þá að ég hafi farið yfir vísa reikninginn. En samt sem áður er ég mjög ósátt yfir því að þetta fyrirtæki reyni að græða svona á fólki...þetta virkar í skamman tíma. Ísland er lítið land og svona spyrst út, það er skiljanlegt þegar Kínverjarnir reyna svona brögð!

Héðan í frá ef ég skrifa undir samning upp á ákveðinn tíma, mun ég alltaf passa mig á því að í Stóra letrinu í 10 blaðsíðna klausunni sem fylgir með, standi ekki að þau muni samt halda áfram að rukka mig eftir að tímabilinu líkur !

Thursday, February 22, 2007

Haukabergið

Tilfinningar dagsins eru blendnar.
Frá því að ég man eftir mér hefur miðpunktur lífs míns verið á Haukabergi 3. Þar hafa mamma og pabbi búið í um 40 ár og þar hef ég alltaf átt heima og innst inni hélt ég alltaf að þar myndi ég alltaf eiga heima. Þegar ég var lítil öfundaði ég alltaf krakkana sem bjuggu í blokk...mér fannst ótrúlega svalt að búa í blokk og mér fannst líka ótrúlega svalt að sumir vinir mínir voru alltaf að flytja...skipta um hús, það var eitthvað svo spennandi. En í dag er ég ótrúlega sátt við að hafa alltaf átt heima á Haukabergi 3 og ótrúlega sátt við góðu minningarnar þaðan og nágrannana sem voru eins og foreldrar mínir...ekkert á því að flytja úr Haukaberginu.

Í Haukaberginu:
*Var ég skírð
*Kenndi ég Óla að hjóla.
*Hafa Ella, Davíð, Siggi og Sigga alltaf verið og eiga alltaf að vera í mínum augum...en ég var frekar sár þegar Pési og Lauga fluttu.
*Bjó eitt sinn Ellen þýska...sem ég var alltaf frekar hrædd við...og Arnar Snær
*Var einu sinni skemmtileg klöpp þar sem við óli gátum dundað okkur allan daginn í bílaleik.
*Var og er brekka sem var ótrúlega brött í minningunni.
*Voru oft haldin party fyrir skólaböll

En í dag var Haukaberg 3 selt og þótt ég sé sátt, foreldra minna vegna, er ég samt soldið leið.

En hver veit nema að einn daginn kaupi ég Haukaberg 3 og að Óli og Silla kaupi Haukaberg 6 og Maggi, Sesselía og Ingvar flytji líka í Haukabergið...væri það ekki frábært ? Ég finn það á mér ykkur finnst þetta snilldar hugmynd.

Thursday, February 15, 2007

Það gerðist ýmislegt í Reykjavík árið 1901...meðal annars þetta:

Sá atburður varð fyrir skömmu, að maður nokkur ókenndur reið allhart hér um götur. Pétur Pólití náði í manninn skammt frá Jóni Þórarsyni kaupmanni. Var maðurinn á hestbaki, hafði tvo til reiðar og búinn til brottferðar. Pétur er ungur í tigninni og vildi nú sýna rögg af sér og þreif til mannsins. Náði hann í kápulaf hans. En maðurinn beið ekki boðanna, sló í hestinn og baðaði út öllum öngum. Pétur lafði í kápulafinu og hékk þar upp eftir stígnum. Sá ókunni sló nú í af öllu afli, og kom ólin í höfuð Pétri. Hesturinn tók sprett mikinn, en rifa kom í kápuna. Sleppti Pétur tökum og greip til höfuðsins. Í þeim stympingum missti maðurinn hattinn af höfði sér. Pétur bað hann taka hattinn, en hinn gaf því engan gaum. Bað pólitíið menn þá að taka manninn en fáir voru þess fýsandi. Þó reyndi einhver að stöðva hann en fékk svipuhögg og varð frá að hverfa. Pétur og lýðurinn horfðu inn veginn, en maðurinn reið berhöfðaður guði á vald og hvarf úr sýn. - Enginn þekkti manninn, og ætla menn að þetta hafi verið útilegumaður !

Wednesday, February 14, 2007

Getur verið að maður brenni hluta af heilanum í burtu ef maður er mikið í ræktinni...í fituBRENNSLU ? Nei ég var bara svona að spá!

Hafið þið einhvern tímann fengið áfengi í tíma frá kennaranum ?
Nei, en ég varð gjörsamlega kjaftstopp þegar kennarinn skellir líters flösku af íslensku brennivíni upp á kennsluborð ásamt 40 staupum og segir " ef þið ætlið að verða leiðsögumenn þá verðið þið að smakka íslenskt brennivín " Nú jæja já...maður slær nú ekki hendinni á móti áfengi, sérstaklega ekki í leiðinlegri kennslustund...sem varð svo allt í einu skemmtileg. Brennivínið smakkaðist jafn ílla og þegar ég var 14 ára að stelast í litlu brennivínsflöskurnar í skápnum hjá mömmu og pabba. Ég fékk eiginlega bara smá flash back, frá götufylleríi...hvíta golfinum...ofl.

Á Sunnudaginn byrja kínversku áramótin og af því tilefni er mér boðið í mat í kínverska sendiráðið á fimmtudaginn. Það er alltaf gaman þegar maður fær tækifæri til að spreyta sig á kínverskunni, en ég verð samt að viðurkenna að hún er farin að dala ansi mikið. Ég er þó á leiðinni til Kína, nánar tiltekið Shang Hai, eftir rúman mánuð og vona ég að tungumálið rifjist eitthvað upp í þeirri ferð.

Nú og svo er stelpan á leiðinni til Frankfurt eftir 10 daga...bara helgarferð og Einar Rúnar kemur akkúrat heim eftir þá helgi :) Þá verða komnir um 2 mánuðir síðan ég sá hann síðast !